Færsluflokkur: Dægurmál

Háhýsabyggð framtíðin

Mér líst bara nokkuð vel á þessa glænýju uppgötvun samlanda minna, að byggja upp í loft. Ekki það að háhýsabygging sé eitthvað nýmóðins á heimsvísu, þá hefur hingað til ekki þótt sniðugt að byggja nema kannski 14 hæðir, að undanskildu Skuggahverfinu. Það er sama í hvaða stórborg erlendis er farið, alls staðar er að finna háhýsi, en þau hafa þann augljósa kost að nýta betur hvern fermeter en lágreistari hús. Þannig er hægt að þjappa meiri byggð á minna svæði og með því er auðveldara að skipuleggja samgöngukerfi en í dreifðari byggð.

Í dag er Höfuðborgarsvæðið ekkert nema klasi af úthverfum sem tengd eru saman með ræfilslegum stofnbrautum sem aldrei voru hannaðar fyrir þá umferð sem fer um þær í dag, ég meina hverjum dettur í hug að setja gönguljós eða bara umferðarljós yfir höfuð, á eina aðal umferðaræð borgarinnar?

Með því að þétta byggð er verið að opna möguleika á betri almenningssamgöngum, en ein meginástæða þess að strætókerfið er ekki betra en það er í dag, er sú að höfuðborgin er svo dreifð og þar af leiðandi fáir farþegar á hverju svæði, að strætisvagnar þurfa að keyra einhverjar endalausar hringavitleysur um illa skipulögð úthverfi áður en þeir komast út á þá stofnbraut sem leiðir þá í næstu hringavitleysu.

Það er því tími til kominn að upp rísi einhverskonar miðborgarkjarni af háhýsum þarna í Smáranum, þeir sem vilja útsýni og sólskin alla daga geta flutt í úthverfin í staðinn.


mbl.is Á efstu hæð á hæsta húsi landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kattaát

Hvað er eiginlega málið? Sums staðar í heiminum þykir ekkert tiltökumál að leggja sér ketti og hunda til munns á meðan annars staðar þykir það ekkert athugavert að borða sviðna kindahausa, kindaheila og súrsuð kynfæri hrúta. Mér finnst ansi mikill tvískinnungsháttur fólginn í því að væla annars vegar yfir uppskrift að matseld einnar dýrategundar meðan sömu aðilar sjá ekkert athugavert við það hvernig öðrum dýrum er slátrað og þau étin. Það kemur auk þess ekkert fram um það að í viðkomandi tímaritsgrein hafi verið talað um ómannúðlega aðferð til að aflífa ketti. Ennfremur get ég ekki séð í dýraverndunarlögum hvernig hægt sé að banna neyslu einnar húsdýrategundar til manneldis fremur en annarrar, en kettir eru jú ekkert annað en húsdýr.

Það hvort smekkur manna liggi í kattaáti er aftur á móti annað mál og finnst mér í góðu lagi að fólk fúlsi við grilluðum Brandi, eða rauðvínsleginni Snotru, ef það fýsir eigi í kattaát. Sjálfur hef ég ekki enn fundið sterka löngun til að ráðast á heimilisketti fjölskyldu minnar og snæða þá, en ef til er þarna úti fólk sem langar að snæða kött, og hefur kost á að aflífa skepnuna með viðurkenndum hætti, þá sé ég lítið athugavert við það.


mbl.is Hvernig matreiðir þú kött?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkuveita á villigötum

Alveg er það út í hött að fyrirtæki í opinberri eigu, sem á að hafa það að markmiði að miðla orku til almennings á sem lægstu verði, sé í stað þess að okra á viðskiptavinum sínum svo þeir geti notað gróðapeninginn í einhver ævintýraverkefni erlendis, sem skapa eiga útvöldum auðkýfingum meiri pening. Þarna er Orkuveitan komin langt út fyrir sitt starfssvið, það má líkja þessu við að Landsspítalinn tæki upp á því að fara að fjárfesta í áhættusömum lyfjafyrirtækjum erlendis og notaði til þess almannafé sem fengist hefði með hærri komugjöldum. Hvað í andskotanum á þetta eiginlega að þýða???
mbl.is Fá að kaupa hlut í REI fyrir 10 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugvöllur í Reykjavík - er það nauðsyn?

Ég fer svosem ekkert í launkofa með það að hafa áður fyrr mótmælt flutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni, en nú get ég bara ekki lengur stutt það að þessi flugvöllur sé að teppa hátt í 200 hektara af einhverju verðmætasta byggingarlandi Íslandssögunnar. Að stórum hluta er Reykjavíkurflugvöllur einungis einkaflugvöllur ríkisbubbanna, með sínar einkaþotur, þó svo að stöku landsbyggðarfólk skreppi til höfuðborgarinnar reglulega. Á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur eru ekki nema kringum 30 kílómetrar og eftir tvöföldun Reykjanesbrautar og hugsanlega hækkun hámarkshraða þar er ekki um að ræða langan tíma sem það tekur að ferðast þarna á milli. Ennfremur má telja líklegt að almenningssamgöngur verði stórlega bættar á þessari leið, ef eftirspurnin er fyrir hendi. Svo má nú ekki gleyma því að margir þeir sem taka flugið af landsbyggðinni til Reykjavíkur eru einmitt á leiðinni á Keflavíkurflugvöll til að fljúga erlendis. Þannig að ég er alveg á því að það megi skoða betur kosti þess að færa innanlandsflugvöllinn til Keflavíkur, í stað þess að eyða rándýru byggingarlandi Reykjavíkur í þetta.
mbl.is Vatnsmýri fram yfir Geldinganes
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft er góðu djóki illa tekið

Já sumir hafa sko húmorinn í lagi. Hver getur hugsað séð nokkuð spaugilegra en mann sem engist um af kvölum er ætandi þvottalögur rennur niður kverkar hans og tærir upp á honum vélindað? Ég tala nú ekki um þegar sár byrja að opnast á húðinni og viðkomandi jafnvel missir meðvitund af sársauka eftir að hafa öskrað eins og stunginn grís í nokkra stund.

Ætli viðbrögð mannsins hafi ekki komið unga barþjóninum í opna skjöldu. Vesalings manneskjan ætlaði bara að sprella örlítið til að lífga upp á vinnustaðinn og umhverfið, en fær svo bara neikvæð viðbrögð hjá einhverjum húmorslausum karli sem bara vælir yfir þessu. Ég er meira að segja viss um að það hefur ekki einu sinni staðið á þvottalagarbrúsanum að ekki mætti skenkja innihaldinu í vínglös á börum og gefa viðskiptavinum, og hver veit nema barþjónninn hafi bara ekki kunnað að lesa? Ha? Þetta eru mistök sem geta komið fyrir hvern sem er!

Nei nei, svona án gríns, þá sýnir svona frétt fram á að síðasta fíflið er ekki enn fætt.


mbl.is Dýrkeyptur brandari barþjónsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíð vetnis...

...tel ég ekki vera mikla sem orkugjafa, eða orkubera réttara sagt, þar sem vetni er einungis ákveðið millistig til að koma raforku úr raforkuverum í mótora bíla eða annarra farartækja. Ástæðan fyrir því er einföld. Kostnaður við framleiðslu þess er of mikill, þar sem raforka er mjög dýr víðast hvar í heiminum þó svo að við fáum hana á skikkanlegu verði. Auk þess er Ísland eitt af litlum hópi þjóða sem hafa að bera umhverfisvænar orkuuppsprettur og því er víðast hvar sem enginn ávinningur næðist af því, umhverfislega séð, að framleiða vetni með jarðefnaknúnum raforkuverum.

Vandinn við vetni sem orkubera er sá að það er svo lítill hluti raforkunnar, í framleiðsluferli vetnis, sem skilar sér í mótor bílsins. Afföllin af raforku eru gríðarleg og í samfélögum þar sem rafmagn er dýrt og unnið á óumhverfisvænan hátt verða hagkvæmnis- og umhverfissjónarmiðin að engu. Þannig að í stað þess að leggja áherslu á vetnið, hvernig væri að leggja meiri áherslu á að framleiða betri rafgeyma í bíla, til þess að hægt sé að dæla rafmagninu beint á bílinn og sleppa þannig vetninu? Sem stendur eru rafgeymar ekki nógu öflugir til að rafbílar geti orðið að veruleika, en vonandi er að í framtíðinni náist það, en til þess þarf mikið fjármagn í rannsóknir.


mbl.is Ýtarleg umfjöllun um íslenskar vetnistilraunir á CNN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja, þá er búið að stíga fyrsta skrefið

Í nafni frjálsræðis og lýðræðis ákváðu Tyrknesk stjórnvöld að afnema 27 ára bann við slæðuburði í Tyrkneskum háskólum, en þeim þykir rangt að banna fólki að stunda nám vegna klæðaburðar síns. Eins og það er orðað hjá yfirvöldum er ég þeim sammála, en málið er nú ekki svo einfalt.

Í fyrsta lagi eru höfuðslæður ekkert annað en trúartákn, og skilst mér að bannið nái yfir önnur trúartákn einnig, þ.á.m. krossa og gyðingastjörnur. Það að banna trúartákn í ríkisreknum háskólum er fyllilega í samræmi við aðskilnað trúarbragða frá stjórnmálum, fólki er heimilt að iðka trú sína í friði, en vera ekki að troða henni upp á aðra. Í öðru lagi eru höfuðslæður að margra mati tákn um þá kúgun og misrétti sem konur eru beittar víða í hinum íslamska heimi. Víða eru konur settar í virðingarstigann á svipaðan stað og geitur og teljast til eigna karlmanna. Ein leið manna til að flagga eignarrétti sínum yfir konum er að skylda þær til að klæðast á ákveðinn hátt og er slæðan hluti af þeim klæðnaði.

Með því að heimila slæðuburð er verið að heimila fólki að flagga og auglýsa trú sína og gefur mönnum auk þess byr undir báða vængi með að krefja konur sínar eða dætur til að bera slæður. Með þessu er einnig verið að leggja blessun yfir það að konur séu lægra settar en karlmenn.
Að mínu mati eru Tyrknesk stjórnvöld því búin að stíga eitt skref í áttina að íslömsku alræðisvaldi. Spurning hvenær herinn fer út í valdarán.


mbl.is Höfuðslæðubanni í tyrkneskum háskólum aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta færsla - staðreyndir lífsins

Í dag er miðvikudagurinn 19. september 2007, fyrir þá sem ekki vissu. Á þeim tíma er þetta er ritað er hádegi, sem er sá tími sem flestir fara í mat. Þannig að ef að einhver sem þetta les er ekki enn farinn í mat, þá er viðkomandi hér með hvattur til þess. Matur er nefnilega mjög mikilvægur, jafnvel mikilvægari en sjónvarp og fótbolti. Þetta er einföld staðreynd. Þetta hefur verið sannfært með mörgum rannsóknum, hvort sem þær voru gerðar á mönnum eða dýrum. Í öllum tilvikum létust tilraunadýrin eftir ákveðið langan tíma án fæðu, að meðaltali eftir 3-4 vikur, að vísu fengu þau ótakmarkað vatn. Bandarísku tilraunadýrin komu reyndar einna verst útúr þessum rannsóknum en þau létust flest eftir um þrjár og hálfa klukkustund án matar. Eþíópíubúar komu best út úr rannsóknunum en þeir gátu lifað að meðaltali í um 40 daga án matar, eða 50 ef þeir nöguðu á sér neglurnar.

Já, þetta er merkileg staðreynd. Sjálfur hef ég gert tilraunir á sjálfum mér með slælegum árangri, en ummerki rannsóknanna má sjá framan á mér. Svona er lífið í dag GetLost


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband