Flugvöllur í Reykjavík - er það nauðsyn?

Ég fer svosem ekkert í launkofa með það að hafa áður fyrr mótmælt flutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni, en nú get ég bara ekki lengur stutt það að þessi flugvöllur sé að teppa hátt í 200 hektara af einhverju verðmætasta byggingarlandi Íslandssögunnar. Að stórum hluta er Reykjavíkurflugvöllur einungis einkaflugvöllur ríkisbubbanna, með sínar einkaþotur, þó svo að stöku landsbyggðarfólk skreppi til höfuðborgarinnar reglulega. Á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur eru ekki nema kringum 30 kílómetrar og eftir tvöföldun Reykjanesbrautar og hugsanlega hækkun hámarkshraða þar er ekki um að ræða langan tíma sem það tekur að ferðast þarna á milli. Ennfremur má telja líklegt að almenningssamgöngur verði stórlega bættar á þessari leið, ef eftirspurnin er fyrir hendi. Svo má nú ekki gleyma því að margir þeir sem taka flugið af landsbyggðinni til Reykjavíkur eru einmitt á leiðinni á Keflavíkurflugvöll til að fljúga erlendis. Þannig að ég er alveg á því að það megi skoða betur kosti þess að færa innanlandsflugvöllinn til Keflavíkur, í stað þess að eyða rándýru byggingarlandi Reykjavíkur í þetta.
mbl.is Vatnsmýri fram yfir Geldinganes
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Svavarsson

Fyrir það fyrsta eru 52 KM á milli Reykjavík og Keflavíkur og það tekur að lágmarki 45 mínútur að komast á milli.

Í öðru lagi eru mörg hundruð störf í tengslum við Reykjavíkurflugvöll beint og óbeint. 

Til hvers erum við þá með Hringbrautina? Má ekki bara flytja hana til Keflavíkur líka?

Tilhvers þurfum við öll þessi samgöngu mannvirki? Á ekki þá bara að banna bíla, því það er svo mikill LÚXUS?

Hvar á þetta að Enda? Getur þú sagt til um það? 

Jón Svavarsson, 2.10.2007 kl. 12:39

2 identicon

Er virkilega einhver þörf fyrir að byggja enn eitt kommablokkarhverfið í Vatnsmýrinni? Getur þú á einhvern hátt fært rök fyrir þeirri nauðsin? Verðmætasta byggingaland borgarinnar.... Hversu verðmætt er það þegar búið er að draga frá þann gríðarlega kostnað sem var lagður í enduruppbyggingu vallarins, plús þann kostnað sem færi í að byggja annann flugvöll uppi á Hólmsheiði, eða úti í Faxaflóa? Við skulum svo gera okkur grein fyrir því að flugvöllurinn fengi aldrei að vera í friði uppi á Hólmsheiði mikið lengur en 10 ár, því hann yrði líka orðinn umkringdur kommablokkum fyrr en varir.

Þú talar um að Reykjavíkurflugvöllur sé orðinn flugvöllur fyrir ríkisbubba á einkaþotum. Það má vera að ákveðinn sannleikur sé í því. En hver heldur þú að græði á þessu verðmæta byggingarlandi í Vatnsmýrinni? Heldurðu að þú fáir eitthvað fyrir hana? Ó nei, það verða þessir sömu ríkisbubbar og þú ert að fárast yfir.

Heimir Arnar Birgisson (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 13:51

3 identicon

Svo ég bæti aðeins við. Þá er löngu búið að klára þessa umræðu. Rökin fyrir því að hafa völlinn eru of veigamikil til þess að hægt sé að horfa framhjá þeim.

Varðandi innanlandsflug á íslandi, þá kemur flugmiðinn til með að hækka umtalsvert. Ástæðan er síst sú að það sé lengra til Keflavíkur en Reykjavíkur frá öllum áfangastöðum, heldur mestmegnis sú að þegar Reykjavík er ekki lengur áfangastaður, þá er ekki hægt að nota Keflavík sem varaflugvöll. Næsti völlur sem nothæfur yrði er Sauðárkrókur. Það þýðir að allar vélar þurfa að bera mun meira eldsneyti til þess að komast á varavöll sé ófært í Reykjavík. Það þýðir líka að þær brenna mun meira eldsneyti af því að þær eru þyngri og þannig hækkar flugmiðinn. Þetta á einnig við í sumum tilvikum með millilandaflug, þó áhrifin þar séu sjálfsagt óveruleg miðað við innanlandsflugið.

Það er einnig búið að leiða flestum landsmönnum það fyrir sjónir að sjúkraflug á íslandi er ekki nema að hluta framkvæmt með þyrlum. Þar skilur oft á milli líf og dauða hversu fljótt og örugglega fólk kemst undir læknishendur. Þarna er sérlega gott að hafa Keflavíkurflugvöll sem varavöll, því óheppilegt yrði að fara með kransæðastíflutilfelli á Sauðárkrók ef ófært væri inn til Reykjavíkur.

Svon mætti lengi telja, en þetta eru allt gömul rök sem hafa komið fram í þessari umræðu á liðnum árum.

Heimir Arnar Birgisson (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 14:04

4 Smámynd: Aron Smári

Það má líka bæta við þetta að Flugfélag Íslands hefur aldrei verið stærra. Eru með 8 vélar sem fljúga út frá Reykjavík og ekki má gleyma því að þetta er fyrirtæki sem loksins er farið að reka með góðum hagnaði síðustu ár útaf betri sætanýtingu í fluginu. 

Og síðan þetta fólk af landsbyggðinni á leiðinni til útlanda, það er mjög stutt frá rampinum hjá Flugfélaginu og inn á BSÍ þar sem er hægt að taka rútu beint inn í brottfarasal í Keflavík og þegar komið er til landsins aftur er boðið uppá skutl frá BSÍ inn á Innanlandsflug, frítt ef komið er með rútunni frá Keflavík. 

Aron Smári, 2.10.2007 kl. 21:19

5 Smámynd: Muddur

Hver er að tala um að byggja eitthvert kommablokkahverfi í Vatnsmýrinni? Við erum að tala um land sem er á besta stað í borginni og gæti verið kjörið undir öflugri háskólakjarna og allskyns atvinnustarfsemi, ekki síst framsækna atvinnustarfsemi á borð við nýsköpun, hátækniiðnað, netþjónabú o.fl. Möguleikarnir eru endalausir. Á þessum hátt í 200 hekturum er einnig mikið pláss til að byggja íbúðir, sem myndu að miklu leyti koma til móts við þann skort sem er á íbúðum í vesturbænum, en um 40% allra starfa í Reykjavík eru þar á meðan mun minni prósenta af íbúunum býr þar. Þetta skýrir að stórum hluta þá gríðarlegu umferðarteppu sem myndast á aðalumferðaræðum borgarinnar á morgnana og um miðjan dag. Það er ljóst að ekki er endalaust hægt að teygja borgina til austurs. Það gerir alla þjónustu og samgöngur mun óskilvirkari. Mun skynsamlegra er að reyna að þjappa byggðinni saman og bæta þá samgöngur á því svæði. Sumir hafa nefnt þann valkost að hægt sé að koma upp almennilegri neyðarmóttöku í Reykjanesbæ sem gæti komið til móts við þá sjúklinga sem flytja þarf með sjúkraflugi. Sú móttaka gæti einnig gagnast íbúum Reykjanesbæjar og nágrennis, sem er nú óðum að stækka. Auðvitað yrði það dýrt, en ég hugsa að sparnaður kæmi að verulegum hluta að móti með þeim samlegðaráhrifum sem það hefur að reka innanlands og millilandaflugvöll á einum og sama stað. Og Aron, það sem þú nefnir varðandi samgöngur frá BSÍ til Keflavíkur, getur þetta ekki virkað alveg eins hina leiðina, þ.e. frá Keflavík til BSÍ fyrir það fólk sem ætlar til Reykjavíkur? Með tvöföldun Reykjanesbrautar skapast einnig betri möguleikar á strætóferðum til og frá Keflavík, sem gæti nýst bæði íbúum sem eru að sækja störf bæjanna á milli og því landsbyggðarfólki sem ætlar til höfuðborgarinnar. Þú nefnir það réttilega, Jón, að frekar langur tími fer í að ferðast milli Reykjavíkur og Keflavíkur, eins og er. En þetta er allt saman hægt að bæta stórlega, t.d. með því sem verið er að vinna að á fullu um þessar mundir, þ.e. að tvöfalda Reykjanesbraut, fækka umferðarljósum og fjölga mislægum gatnamótum. Allt þetta mun stytta ferðatímann verulega milli Keflavíkur og Reykjavíkur.

En talandi um 45 mínútur, þá getur nú tekið 45 mínútur að keyra milli borgarhluta á vissum tímum dags, sem að vísu kannski kemur flugvellinum í Vatnsmýrinni ekkert við, en ég er svona bara að benda á það til samanburðar. Svo má nú ekki gleyma því að það eru ekki allir landsbyggðarferðalangar að fara í 101. Margir eru alveg eins að fara til Hafnarfjarðar, Kópavogs, Garðabæjar, Mosfellsbæjar eða bara í Grafarvoginn. Með bættum samgöngum milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins gæti fólk jafnvel verið fljótara að komast í Hafnarfjörðinn, Garðabæ, Kópavog og sum hverfi Reykjavíkur en það kemst í dag frá flugvellinum í Vatnsmýrinni.

Semsagt, ég get ekki séð að þetta sé óraunhæfari kostur en eitthvað annað.

Muddur, 2.10.2007 kl. 21:40

6 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Vandamálið er ekki hvort flugvöllurinn fer.  Spurningin er hvað kemur í staðinn.

Mér skilst af flugmönnum sem ég hef rætt við að Keflavíkurmöguleikinn sé ekki raunhæfur út frá flugrekstrarlegum ástæðum.  Þar er víst það hvasst að þótt það stoppi ekki stóru millilandaþoturnar þá myndi þeim dögum fjölga verulega sem innanlandsflugið lægi niðri.  Lausn á ferðalaginu milli RVK og KEF er einfaldlega lest sem færi þessa leið á 300 km hraða og væri því ca. 10 mínútur á leiðinni.  Það er hins vegar óþarfi af fyrrgreindum ástæðum.

Þá eru tvö möguleg flugvallarstæði eftir til viðbótar óbreyttu ástandi: Hólmsheiði og Löngusker.  Það er auðvitað fjarstæðukennd hugmynd að ætla að koma flugvelli fyrir á Hólmsheiði sem er í um 120 metra hæð yfir sjávarmáli og þar að auki á næsta hól við helsta vatnsból borgarbúa.  Þá eru bara Löngsker eftir.  Við þurfum að fara að fá almennilega greiningu á þeim möguleika með tilliti til veðurs o.þ.h.  Gangi hann eftir væri auðvitað líka möguleiki að flytja Keflavíkurflugvöll í bæinn og byggja einn stóran flugvöll úti á Lönguskerjum.  Þá væri annað hvort hægt að leggja niður Keflavíkurflugvöllur eða nýta hann sem fraktvöll, alþjóðlegt fríverslunarsvæði og/eða varaflugvöll sé þörf á því.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 4.10.2007 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband