Færsluflokkur: Dægurmál
22.10.2009 | 12:08
Skiptir ekki máli hversu góðan hest þú veðjar á...
...ef þú setur of miklar byrðar á hann, þá gefst hann upp í hlaupinu. Svo einfalt er það Árni minn. Það sem ég á við með þessu, er að með því að leggja óhóflega mikið af álögum á áliðnaðinn, gagnaver, olíuleit o.fl. þá erum við að gera þessum aðilum það erfitt fyrir að þeir sjái ekki hag í að halda hér áfram starfsemi eða byggja hana frekar upp. Þar með erum við að tapa miklum framtíðartekjum, svona líkt og að éta útsæðið í stað þess að planta því niður og uppskera síðar. Þetta er bara því miður hugsjónin hjá þessari ríkisstjórn, skattpína allt og alla, í einhverri draumsýn um að þessir aðilar rétti bara brosandi stærra seðlabúnt til baka, en raunin er þó sú að aukin skattpíning gerir þeim erfiðara fyrir og þar með að lélegri skattstofni.
Það er eðli markaðarins að fjármagnið leitar þangað sem það sér mestu gróðamöguleikana, og alveg sama hversu mikið við viljum berja hausnum við steininn og halda að við getum brotið á bak aftur markaðslögmálin, þá er þetta bara því miður staðreynd. Við þurfum erlent fjármagn til að byggja upp atvinnustarfsemi hér af því að við eigum ekkert eigið fé. Þess vegna þurfum við að búa til samkeppnishæft umhverfi hér á Íslandi til þess að laða að erlent fjármagn. Við megum ekki fæla tækifærin í burtu með því að hóta þeim skattpíningu eða öðrum álögum. Og eins og skattpíning sé ekki nóg, þá gerir þessi ríkisstjórn enn meira í því að fæla burt erlenda fjárfesta með öllum þessum útspilum umhverfisráðherra, sem þykist vera einhverskonar umhverfis-messías heimsins, með því að tefja fyrir framkvæmdum í Helguvík og slá burtu 15 milljarða losunarkvóta á koltvíoxíði, en gerir sér ekki grein fyrir því að við erum að svelta NÚNA. Við getum haft áhyggjur af því sem hugsanlega gerist á næstu árþúsundum þegar við erum komin upp úr kreppunni, sem gerist vonandi eftir fáein ár. Ég held að heimurinn sé ekki að farast þó að við Íslendingar mengum aðeins meira í örfá ár.
Við þurfum bara að sætta okkur við það að við erum ekki að fara að lifa af því að selja fjallagrös, lopapeysur og hvalaskoðunarferðir eins og Vinstri-Grænir virðast svo uppteknir af. Þetta eru hliðargreinar sem eru góðar í sjálfu sér, en duga bara ekki til. Við þurfum hingað gagnaver, stálkaplaverksmiðjur, kolefnisvinnslustöðvar eða hvers konar hreinan iðnað sem mönnum dettur í hug. Meðfram þessu getum við svo byggt upp til lengri tíma "hugvits-iðnað" líkt og Marel, Össur og Keilir eru að vinna í, og ef það gengur vel, þá gætum við í framtíðinni lifað nær eingöngu á vistvænum hátækniiðnaði, heilsu-centerum og háskólatorgum eða einhverju álíka.
Veðja á réttan hest? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2009 | 14:25
Bjánar
Hvaða veruleikafirring er í þessu liði? Halda þau virkilega að ef við segjum nei við öllum þessum störfum og segjum okkur úr NATO, sem by the way er varnarbandalag, að þá muni allir í heiminum fara að brosa og dansa undir regnboganum hönd í hönd með blóm í hárinu?
Nei, það gerist aldrei, og það er einföld ástæða fyrir því: Eðli mannsins. Maðurinn er grimm dýrategund þar sem alltof mikill fjöldi einstaklinga er um þau takmörkuðu gæði sem jörðin hefur upp á að bjóða, og það er í eðli mannsins að vilja ná sem flestum gæðum fyrir sig og sína, eða viðhalda þeim gæðum sem hann þegar hefur aflað sér. Þess vegna verða alltaf árekstrar milli einstaklinga, hópa eða heilla þjóða.
Við höfum hér tækifæri til að græða á þessu eðli mannsins (annars gerir það bara einhver annar) og við þurfum á peningunum að halda. Ef við eigum að hafna öllu sem hægt er að tengja á einhvern hátt við hernað, verðum við þá ekki að hætta að flytja út matvörur, vatn eða ál? Ég meina, hermenn borða mat og drekka vatn, og ál er notað í hergagnaframleiðslu. Eins væri hrikalegt að fá hingað gagnaver eða lyfjaiðnað, því gagnaver hýsa gögn sem hugsanlega geta nýst í hernaði og eins eru lyf notuð til að lækna hermenn líka, sem geta þá farið og drepið fleiri. Þá eru nýsköpunarfyrirtæki eins og CCP skelfileg, því það framleiðir tölvuleiki sem "þjálfa" saklaust fólk upp í hernaði, jú og Össur framleiðir hjálpartæki sem nýst geta hermönnum...
Svona er endalaust hægt að ganga í vitleysunni. Kannski finnst hernaðarandstæðingum bara best ef við myndum öll bara búa í einhverri kommúnu uppi á hálendi, yrkja ljóð, éta mosa og tína blóm?
Munu beita sér gegn viðhaldsstöð fyrir orrustuflugvélar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2009 | 10:29
Hvenær ætla menn að hætta að tala um afskriftir og niðurfærslu...
... og fara að kalla hlutina sínum réttu nöfnum, þ.e. skuldaleiðréttingu!!! Það er enginn að biðja um ölmusu, heldur réttlæti. Ef ég fæ lánaðan pening á tilteknum kjörum og lánastofnunin réttir mér greiðsluáætlun sem sýnir þær forsendur sem ég er að taka lánið á, er þá ekki rétt að álykta sem svo að ef þær forsendur sem ég tók lánið út á bresta (eða með öðrum orðum hrynja, og það jafnvel fyrir tilstuðlan viðkomandi lánastofnunar), þannig að verulega halli á minn rétt, að þá beri lánveitandanum að leiðrétta það misræmi sem skapast milli þeirra forsendna sem ég samþykkti og þeirra sem ég samþykkti ekki. Af hverju á ég að taka alla ábyrgð af slíkum forsendubresti sem ég átti engan þátt í að stuðla að?
Mér er alveg andskotans sama hvernig menn fara að því að höndla það, en ég vil ekki borga eitthvað sem ég samdi ekki um að borga, sérstaklega ef ég á það á hættu að missa íbúðina mína út af því.
Kallað eftir samræmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.6.2009 | 16:26
Það sem vantar í umfjöllunina...
Það sem vantar í umfjöllun blaðamanns New York Times, er að gríðarmargar fjölskyldur munu sligast undan þessum "frábærlega snjöllu og huguðu" skattahækkunum sem ríkisstjórnin boðar. Vissulega er það rétt að þjóðin þarf að færa ýmsar fórnir út af þessu bölvaða rugli sem þessi aumingjans stjórnvöld (allir flokkar) og útrásararpakkið ollu hér, en fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Ungt og menntað fólk mun flýja héðan í hrönnum, meðan eftir sitja láglaunafólk, öryrkjar og gamalmenni sem einfaldlega hafa ekki efni á að flytja út. Á sama tíma og á að skera gríðarlega niður í útgjöldum ríkisins, m.ö.o. reka fullt af fólki, þá á að auka skattbyrði á minnkandi ráðstöfunartekjur heimilana auk þess sem verðbólguaukandi aðgerðir stjórnvalda hækka verðtryggð lán uppúr öllu valdi, þannig að margt fólk lendir í skuldafangelsi til dauðadags. Í viðbót við þetta hörmulega ástand hér á að bæta 700+ milljarða skuldapakka ofan á okkur án þess að einu sinni reyna að fara dómstólaleiðina með það mál. Það er ljóst að hér verða gjaldeyrishöft um langa hríð, því það vill enginn eiga hér fjármagn né kaupa krónur vitandi það að við munum verða gjaldþrota eftir 7 ár (eða minna) þegar við þurfum að byrja að borga af þessum 700 milljörðum.
En auðvitað eru Samfó menn með svarið við öllum vanda þjóðarinnar: ESB!
Já, endilega semjum við sömu aðila og eru að beita AGS gegn okkur til að borga skuldir sem meira að segja eitt forysturíki ESB; Frakkar, hafa viðurkennt að við hugsanlega þurfum ekki að borga (þ.e. þeir sögðu að ríkisábyrgð gilti ekki þegar algjört bankahrun ætti sér stað). ESB er ekki góðgerðarstofnun, heldur standa þeir á bak við Breta og Hollendinga í að koma okkur á hausinn til þess að geta innlimað okkur í sambandið möglunarlaust af okkar hálfu (við munum ekki hafa neina samningsstöðu). Ekki má heldur gleyma því að ESB vill nota okkur líka til að fá Norðmenn í sambandið, því EFTA mun leysast upp ef við göngum í ESB. Þetta er því úthugsuð strategía valdabrjálæðinganna í Brussel og við ætlum að taka brosandi á móti þeim með uppglenntan afturendann, reiðubúin að vera tekin í ósmurt *********
Frábært!!!
Ættu að líta til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.6.2009 | 10:22
Leikritið IceSlave
Issi er skyndilega vakinn upp af værum svefni við það að einhver er að banka harkalega á útidyrnar. Með stírurnar í augunum opnar hann hurðina og sér þar tvo stóra og mikla og dökkklædda menn, sem voma yfir honum á ógnandi hátt, Breddi og Holli heita þeir. Issi kannast við þá, enda hefur hann lengi talið þá góðkunningja sína.
Breddi (með þjósti): Hey lúði, þú skuldar mér pening!
Holli (mjóróma): Já, mér líka.
Issi (skelkaður og hissa): Ha? Skulda ég ykkur... bíddu af hverju segiði það?
Breddi: Sko, sonur þinn var að gambla á netinu og tapaði gommu af peningum... mínum peningum!
Holli (mjóróma): Mínum líka sko!
Breddi: Já, og við erum búnir að taka bílinn og restina af draslinu hans í okkar vörslu, en það er ekki nóg, við viljum að þú borgir það sem uppá vantar!
Issi: Eeeh... en... en... é-ég á engan pening, mér þykir þetta leitt, en sonur minn á að standa undir sínum skuldum sjálfur sko.
Breddi (hækkar róminn): Fokking kjaftæði! Við Holli erum búnir að ræða við alla hina í Ebba-klúbbnum og við erum allir sammála um að þú eigir að borga þetta. Þú ert pabbi hans og berð því ábyrgð á því sem hann gerir.
Issi: Ég veit ekki... sonur minn er sjálfstæður einstaklingur og hefur engan rétt á að skuldbinda mig né aðra fjölskyldumeðlimi fyrir sínu veseni.
Breddi (orðinn enn háværari): Sko, ef þú borgar okkur ekki, þá færð þú aldrei inngöngu í Ebba klúbbinn og þú færð heldur engan pening lánaðan hjá IMF bankanum, og ég get sko svarið það að þú ert að kalla yfir þig svo mikil vandræði að þú og þínir afkomendur munu ekki sjá til sólar næstu árhundruði!
Issi: En ég hélt að IMF bankinn væri alveg óháður ykkur í Ebba-klúbbnum.
Breddi (háðslega): HAHAHA! Hélstu það virkilega fáráðlingurinn þinn? Þú ert heimskari en ég hélt... en jæja, hvað segirðu, hvernig ætlarðu að borga þetta?
Issi: Sko, ég á engan pening núna, það er erfitt hjá mér og fjölskyldunni...
Breddi: Jájájá blablabla hverjum er ekki sama um þín fokking vandræði. Það eiga allir í vandræðum.
Issi: Bíðum nú við. Hvað er þetta mikið sem ég á að borga?
Breddi: Tjah... þetta eru ca. 670 milljarðar í þínum vesælu krónum.
Issi: ÚFF! 670 milljarðar!? Ég get ekki borgað svo mikið, það er engin leið fyrir mig að gera það.
Breddi: Sko, við Holli erum búnir að útbúa samning sem þú átt alveg að geta staðið við, og það eina sem vantar er að þú skrifir undir. Sko... þú borgar ekkert í 7 ár, en safnar smá vöxtum í millitíðinni. Ha? Þarft ekkert að hafa áhyggjur af þessu í 7 ár, er það ekki flott?
Issi: Bíddu bíddu bíddu... mig langar nú að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort ég eigi virkilega að borga þetta.
Breddi (reiðilega): Ertu vitlaus maður? Auðvitað áttu að borga þetta! Þú ferð ekki rassgat með þetta fyrir dómstóla, það tekur alltof langan tíma og við Holli nennum ekki að bíða svo lengi! Skrifaðu bara undir þennan fokking samning! NÚNA!
Issi: Rólegur maður, ég þarf nú að lesa þennan samning og bera hann undir konuna mína, hún þarf nú að fá að segja sitt álit á þessu.
Breddi (í hæðnistón): Sýna konunni þinni? Bíddu, ertu einhver fokking undirlægja auminginn þinn? Auðvitað ferðu ekki að sýna bölvaðri kerlingunni eitt né neitt, þú skrifar bara undir, punktur!
Issi (skjálfandi röddu): Ekki tala svona um konuna mína!
Breddi (öskrandi af reiði): Hættu þessu djöfulsins væli maður! Skrifaðu bara undir eða við fokking berjum þig og alla þína fokking fjölskyldu!
Issi (með tárin í augunum): Eeeh... allt í lagi, ég skal skrifa undir. Bara plís, ekki meiða okkur.
Breddi (glottandi): Hehe auðvitað ekki, við erum jú vinir.
Stuttu seinna í reykjarmettuðu bakherbergi í Ebba-klúbbnum.
Breddi: Hehe, okkur tókst að fá fíflið til að skrifa undir. Hann getur aldrei borgað þetta.
Ebbi: Flott, þá er allt samkvæmt áætlun. Nú kemur hann skríðandi til okkar og er tilbúinn að gera hvað sem er til að komast í klúbbinn. Þú veist hvað það þýðir.
Breddi: Ójá. Ég hef beðið lengi eftir þessu.
Endir.
Spurning um daga hvenær leynd verður létt af Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2009 | 20:01
Takið þessa helv**** djö******* vísitölu úr sambandi!!!
Af hverju í fjandanum geta stjórnvöld ekki drattast til að taka þessa verðbólguvísitölu úr sambandi, þó ekki sé nema tímabundið, á meðan heimilin eru að berjast í bökkum við að eiga fyrir mat? Það virðist allt miða að því að lánardrottnar haldi öllu sínu og taki ekki á neinn hátt á sig ábyrgðina á því ástandi sem þeir áttu jú mikinn þátt í að skapa. Eins var allt lagt í sölurnar til að sparifjáreigendur héldu sínu, þrátt fyrir að fólk sem hafði fest sitt fé í öðrum sparnaðarformum á borð við fasteignir, tapar sínu. Það er andskoti nógu slæmt að allar vörur hér hækki á meðan laun lækka og skattar aukast, þó ekki sé bætt ofan á skuldir fólks í þokkabót. Þetta gengur bara einfaldlega ekki upp.
Svo ef út í það er farið þá koma þessar hækkanir til með að valda minni neyslu á þeim vörum sem vissulega dregur úr ávinningnum af hækkuninni en á móti kemur að verðbólguhækkunin stendur. Það á eftir að ganga af heimilunum dauðum ef ekkert er gert varðandi verðbólguna, til dæmis að færa vísitöluna handvirkt aftur í tímann eins og Borgarahreyfingin o.fl. hafa mælst til. Lánardrottnar verða bara að feisa skellinn sem því fylgir.
Ríkið fær 2,7 milljarða - lánin hækka um 8 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2009 | 13:35
Að hafa pólitískt ranga skoðun
Þessi ágæta stúlka virðist svosem ekki vera neinn Einstein, en hún má þó hafa sína skoðun á þessu máli, en er rökkuð niður fyrir það, sérstaklega þar sem hún segir að "svona hafi hún verið alin upp". Sumir segja að hún sé þar með ekki með sjálfstæða skoðun. En hvað er þá sjálfstæð skoðun? Hvenær á lífsleiðinni myndar fólk sér skoðun sem tekur algjörlega ekkert viðmið af neinu í umhverfinu? Ég sem dæmi er á þeirri skoðun að allar manneskjur eigi rétt á sjálfsögðum mannréttindum. Þetta er ekki algerlega ný og áður óþekkt skoðun sem ég fann upp sjálfur, heldur eru sjálfsagt meirihluti mannkyns á þessari skoðun. Þessa skoðun mína hef ég fengið í mínu uppeldi og því samfélagi sem ég bý í. Er ég þar með ekki með sjálfstæðar skoðanir í þessum málum? Yrði ég semsagt að taka þá afstöðu að vera á móti mannréttindum til að teljast hafa sjálfstæða skoðun í því máli? Slík röksemdafærsla er náttúrulega bara bull.
Þessi bandaríska stúlka hefur verið alin upp í kristnu samfélagi, þar sem Biblían og hennar boðskapur er í hávegum hafður, og samkvæmt Biblíunni er hjónabandið skilgreint sem samband manns og konu. Þetta er það sem samfélagið sem stúlkan kemur úr trúir og þar af leiðandi hefur það haft áhrif á hennar skoðanir í hennar uppvexti. Þó fólk sé ósammála hennar skoðun þá er óþarfi að rakka hana niður fyrir það.
En svo ég taki nú afstöðu til þessa máls, þá er ég hlynntur því að samkynhneigðir fái að njóta allra lagalegra og félagslegra réttinda til jafns við gagnkynhneigða, til dæmis að þeir geti hafið hjúskap (þ.e. borgaralega giftingu hjá sýslumanni, eða vígslu hjá viðurkenndu trúfélagi). En aftur á móti þá eru mörg trúfélög á móti giftingum samkynhneigðra af því að þessi félög trúa því að vígt hjónaband eigi aðeins að vera milli manns og konu. Það er þeirra skoðun og mér finnst ekkert að því. Fólk hefur rétt til að velja sér trúfélag og ef tiltekið trúfélag höfðar ekki til sumra einstaklinga, þá fer það bara í eitthvert annað trúfélag þar sem skoðanir þeirra fá meiri hljómgrunn. Það þýðir ekkert að heimta að trúfélagið breyti sínum gildum til að höfða til þeirra betur. Ættu þá þeldökkir kannski að heimta að Jesú verði skilgreindur sem blökkumaður? Eða femínistar að heimta að Jesú hafi raunverulega verið kona?
Þetta er svipað með stjórnmálaflokka. Ef mér líst ekki á stefnumál og skoðanir tiltekins stjórnmálaflokks, þá kýs ég einhvern annan, nú eða skila auðu. Það telst ekki til þess sem við köllum sjálfsögð mannréttindi að allir stjórnmálaflokkar þurfi að breyta sínum stefnumálum til að henta mér betur, og það sama ætti að gilda um trúfélög.
Fegurðardrottning veldur titringi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2009 | 12:04
Vesalings barnið
Kröfuharðir foreldrar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2009 | 00:02
Íslamistar alltaf að eflast í Tyrklandi
Það er greinilegt að Tyrkland er að færast meir og meir aftur til miðalda með því að stoppa ekki af þessa háværu íslamista sem stefna að því að gera Tyrkland að enn einu sharía alræðisríkinu. Það er alveg ótrúlegt hversu mikil hræsni og frekja er fólgin í þessarri kröfu Tyrkja um að forsætisráðherra lýðræðisríkis, sem hefur frelsi fólksins að leiðarljósi, þurfi að biðjast afsökunar á því að einhverjir þegnar ríkisins hafi nýtt sér sitt tjáningarfrelsi. Hvernig væri að Tyrkir og önnur múslimaríki bæðust afsökunar á öllum þeim mannréttindabrotum sem eiga sér stað þar á hverjum einasta degi? Hvernig væri að vesturlandabúar þystu út á götur og brenndu fána Saudi Arabíu, Írans, Tyrklands og fleiri múslimaríkja og mótmæltu með því hvernig stjórnvöld þar fara með þegna sína, til dæmis með því að refsa þeim miskunarlaust fyrir að lifa ekki lífi sínu algerlega eftir einhverri sadískri skáldsögu sem skrifuð var af einhverjum geðsjúklingum fyrir hundruðum ára
Segja Fogh biðjast afsökunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.2.2009 | 15:27
Að byrja á öfugum enda
Þetta fyrirkomulag er ofar mínum skilningi. Segjum sem svo að einungis karlar byðu sig fram í efstu tvö sætin, mætti þá karlmaður ekki sækjast eftir 3. sætinu? En ef kona byði sig fram í 2. sætið og karl í 3. sætið og síðan myndi konan tapa fyrir karlinum um 2. sætið, en karlinn sem sótti um 3. sætið hefði unnið, myndu þau atkvæði sem hann fékk þá eyðileggjast og kona sem fengið hefði færri atkvæði en hann látin fá sætið? Hvurslags vitleysa er þetta eiginlega? Er ekki verið að byrja á öfugum enda í blessaðri jafnréttisbaráttunni?
Vissulega hefur raunin verið sú að mun fleiri karlar en konur hafa náð efstu sætum úr prófkjöri. Annað hvort er það vegna þess að færri konur sóttu um þau sæti, nú eða þá að þær konur sem sóttu um fengu færri atkvæði en karlarnir. Það eru frambjóðendur sem ráða því í hvaða sæti þeir ætla að bjóða sig fram og það eru atkvæðin sem ráða því hver af frambjóðendunum er valinn í sætið. Það er ekki eins og einhver hópur af jakkafataklæddum karlrembusvínum sitji glottandi í einhverju reykfylltu bakherbergi að plotta gegn konum og gera það að verkum að þær komast hvergi áfram. Síðast þegar ég vissi voru konur helmingur kjósenda og þar með handhafar helmings valdsins. Ég tel því eðlilegt að spyrja; fyrst kynferði frambjóðenda er svona afskaplega mikilvægt fyrir hag kjósenda, af hverju hafa þá ekki fleiri konur kosið kvenkyns frambjóðendurna? Hvað er það sem veldur því að útúr lýðræðislegum kosningum skuli konur fá færri atkvæði en karlar? Er það ekki þarna sem vandamálið liggur og eitthvað þarf að bæta? Hvernig væri að ráðast á orsökina frekar en afleiðingarnar?
Það má alveg gera ráð fyrir því að einhverjar reglur sem eiga að hampa öðru kyninu á kostnað hins, sem meira að segja tekur fyrir hendurnar á lýðræðinu, séu ekki til þess fallnar að auka jafnrétti. Frambjóðendur eiga að fá að bjóða sig fram í hvaða sæti sem þeir vilja og kjósendur eiga að fá að velja þann frambjóðanda sem þeir vilja. Kynferði á ekki að skipta neinu máli þarna. Ef frambærilegasti og/eða vinsælasti frambjóðandinn er kona, þá hlýtur hún að vera valin frekar enn aðrir frambjóðendur. Ef kvenkyns frambjóðandi fær færri atkvæði en karl, þá er það dómur kjósenda. Hún hefur kannski ekki auglýst sig eins mikið, eða ekki haft jafn góð málefni að leiðarljósi að mati kjósendanna. Við vali kjósenda á ekki að hrófla, annars er verið að grafa undan hornsteini samfélagsins, sem er lýðræðið.
Ef færri konur sækjast eftir sætum en karlar, þá þýðir það bara að færri konur hafa áhuga á starfinu eða telja sig ekki geta sinnt því. Hugsanlega þarf einhverskonar hugarfarsbreytingu hjá fólki um að konur séu jafnhæfar til verka og karlar. Slíka hugarfarsbreytingu tel ég afar ólíklega ef alltaf verður reynt að ráðast á vandann með setja einhverjar reglur um kynjakvóta.
Dregur framboð sitt til baka vegna kynjakvóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)