Hlé í myndum = rugl

Ég er einn af þeim sem hef alveg afskaplega mikið á móti hléum í bíó. Mér finnast hlé í bíó vera eitthvað það tilgangslausasta sem fundið hefur verið upp.

Fyrir það fyrsta, þegar ég borga 950 krónur fyrir að sjá bíómynd, þá vil ég fá að sjá bíómynd, ekki auglýsingar. Ég vil setjast niður í þægilegt sæti og fá að njóta þessarra 90+ mínútna þar til myndin er búin. Ég get svosem sætt mig við nokkrar auglýsingar fyrir myndina, enda þykja mér sýnishorn annarra mynda oft áhugaverð, en ég á erfitt með að sætta mig við að myndin sé klippt sundur einhversstaðar í miðju og á mig dælt auglýsingum í korter áður en myndin byrjar aftur. Þetta drepur niður spennuna og maður jafnvel missir kontakt við það sem er að gerast í myndinni.

Í öðru lagi, þá er nægur tími áður en myndin byrjar fyrir fólk að birgja sig upp af gosi, nammi og poppkorni og því á það ekki að þurfa eitthvert hlé á myndinni til að geta keypt slíkt "hollmeti". Eins, ef einhver verður svangur á miðri mynd, þá verður hann bara að bíta í það súra og missa af nokkrum mínútum af myndinni til að fara í sjoppuna. Í nánast öllum myndum koma rólegir kaflar sem þægilegt er að nýta til þess brúks. Sumir þjást af offitu og óstjórnlegri matarlyst og þurfa því sífellt að vera étandi. Ég skil ekki af hverju ég þarf að líða fyrir vandamál þessa fólks. Það jafnvel gæti hjálpað þessu fólki að "þvinga" það til að vera án sorpfæðis í 90 mínútur.

Í þriðja lagi er alveg nægur tími áður en myndin byrjar, fyrir fólk að gera þarfir sínar og því á það ekki að þurfa hlé til þess brúks inni í miðri mynd. Fólk getur bara sjálfu sér um kennt ef það getur ekki asnast á klósettið í tæka tíð. Ef einhver bíógestur þjáist af þvagleka, lítilli blöðru eða niðurgangi, þá á ég ekki að þurfa að líða fyrir þörf þessa fólks fyrir tíðar klósettferðir, það getur valið að vera heima hjá sér og horft á DVD eða látið sig hafa það að horfa á hlélausa mynd. Þetta er sáraeinfalt mál, fólk hefur þrjá kosti. Annað hvort klárar það sitt fyrir myndina, heldur í sér þar til myndin er búin, eða einfaldlega skellir sér á klósettið meðan á rólegum kafla í myndinni stendur.

Semsagt, hlé í miðri mynd er gömul og úrelt hefð sem löngu er orðið tímabært að hætta. Þetta væri kannski fyrirgefanlegt væri bíómiðinn helmingi ódýrari.


mbl.is Auglýsingahlé í kvikmyndum brot á höfundarrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband