Áfram dýraverndunarsinnar... eða þannig

Já þeir eru alveg æðislega sniðugir þessir dönsku dýraverndunarsinnar, líkt og "starfsbræður" þeirra í Finnlandi hér um árið. Að sleppa þúsundum lítilla, krúttlegra og saklausra minnka frá vondum slátrurum með peningaglampa í augum, sem vilja bara fletta skinnunum af vesalings varnarlausu greyjunum. Hljómar mjög fallegt og hugljúft, en eins og hver sæmilega þenkjandi einstaklingur getur ímyndað sér er raunin önnur. Það sem þessir dýraverndunar-fábjánar gera sér ekki grein fyrir, er að þeir eru að valda hryðjuverki á náttúrunni í kring, því eins og margir vita eru minnkar óendanlega grimm rándýr sem víla það ekki fyrir sér að murrka lífið úr öllum smákvikindum sem þeir koma kjaftinum nálægt, og oft án þess að ætla sér beinlínis að éta bráðina. Vel er þekkt það fyrirbrigði hér á Íslandi þegar minnkur kemst í hænsnabú, en yfirleitt myrðir hann allar hænurnar en tekur svo kannski bara eina með sér í grenið sitt. Ekki bætir svo úr skák að minnkar fjölga sér með ógnarhraða og eru allnokkuð harðger kvikindi og alls ekki vitlausir, svo að þeir verða að ansi illvígri plágu í viðkvæmu lífríki. En að því gefnu að þessir dýraverndunarsinnar skeyti engu um önnur dýr en minnka (annars hefðu þeir nú ekki sleppt þeim út), þá voru þeir heldur ekki að gera minnkunum mikinn greiða, því ljóst er að yfirvöld í Danmörku munu beita öllum brögðum til að útrýma þeim og öllum þeirra afkvæmum til að vernda lífríkið og líklegt verður að telja að fleiri minnkar muni liggja í valnum þegar upp er staðið en þessir 5000 sem sleppt var. Þá kom einnig fram í fréttum að mikill fjöldi minnka hefði endað ævi sína á hraðbraut nokkurri sem liggur þarna skammt frá búinu. Ekki má svo gleyma þeirri staðreynd að þessir minnkar hafa alla tíð verið aldir upp í búrum og þekkja því ekki náttúruna né hafa nokkra reynslu af því að lifa af í grimmilegri náttúrunni.

Þannig að ég get ekki betur séð en að þeir aðilar sem þetta framkvæmdu hafi verið vanhugsandi fábjánar sem eru svo blindaðir af trú á það að öll dýr skuli vera frjáls, að þeir pæla ekkert í þeirri staðreynd að frelsi einnar dýrategundar getur bitnað á hundruðum annarra tegunda.


mbl.is Skemmdarverk á dönsku minkabúi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo ekki sé nú á það minnst að þessar sleppingar ameríkuminks (Mustela vison) eru að hrekja evrópuminkinn (Mustela lutreola) á barm útrýmingar, því ameríkuhögnarnir makast við evrópulæðurnar fyrr en evrópsku högnarnir, án þess að nokkuð verði af goti, og evrópsku læðurnar breima ekki aftur það árið.

Mustela lutreola (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband