18.6.2009 | 10:22
Leikritið IceSlave
Issi er skyndilega vakinn upp af værum svefni við það að einhver er að banka harkalega á útidyrnar. Með stírurnar í augunum opnar hann hurðina og sér þar tvo stóra og mikla og dökkklædda menn, sem voma yfir honum á ógnandi hátt, Breddi og Holli heita þeir. Issi kannast við þá, enda hefur hann lengi talið þá góðkunningja sína.
Breddi (með þjósti): Hey lúði, þú skuldar mér pening!
Holli (mjóróma): Já, mér líka.
Issi (skelkaður og hissa): Ha? Skulda ég ykkur... bíddu af hverju segiði það?
Breddi: Sko, sonur þinn var að gambla á netinu og tapaði gommu af peningum... mínum peningum!
Holli (mjóróma): Mínum líka sko!
Breddi: Já, og við erum búnir að taka bílinn og restina af draslinu hans í okkar vörslu, en það er ekki nóg, við viljum að þú borgir það sem uppá vantar!
Issi: Eeeh... en... en... é-ég á engan pening, mér þykir þetta leitt, en sonur minn á að standa undir sínum skuldum sjálfur sko.
Breddi (hækkar róminn): Fokking kjaftæði! Við Holli erum búnir að ræða við alla hina í Ebba-klúbbnum og við erum allir sammála um að þú eigir að borga þetta. Þú ert pabbi hans og berð því ábyrgð á því sem hann gerir.
Issi: Ég veit ekki... sonur minn er sjálfstæður einstaklingur og hefur engan rétt á að skuldbinda mig né aðra fjölskyldumeðlimi fyrir sínu veseni.
Breddi (orðinn enn háværari): Sko, ef þú borgar okkur ekki, þá færð þú aldrei inngöngu í Ebba klúbbinn og þú færð heldur engan pening lánaðan hjá IMF bankanum, og ég get sko svarið það að þú ert að kalla yfir þig svo mikil vandræði að þú og þínir afkomendur munu ekki sjá til sólar næstu árhundruði!
Issi: En ég hélt að IMF bankinn væri alveg óháður ykkur í Ebba-klúbbnum.
Breddi (háðslega): HAHAHA! Hélstu það virkilega fáráðlingurinn þinn? Þú ert heimskari en ég hélt... en jæja, hvað segirðu, hvernig ætlarðu að borga þetta?
Issi: Sko, ég á engan pening núna, það er erfitt hjá mér og fjölskyldunni...
Breddi: Jájájá blablabla hverjum er ekki sama um þín fokking vandræði. Það eiga allir í vandræðum.
Issi: Bíðum nú við. Hvað er þetta mikið sem ég á að borga?
Breddi: Tjah... þetta eru ca. 670 milljarðar í þínum vesælu krónum.
Issi: ÚFF! 670 milljarðar!? Ég get ekki borgað svo mikið, það er engin leið fyrir mig að gera það.
Breddi: Sko, við Holli erum búnir að útbúa samning sem þú átt alveg að geta staðið við, og það eina sem vantar er að þú skrifir undir. Sko... þú borgar ekkert í 7 ár, en safnar smá vöxtum í millitíðinni. Ha? Þarft ekkert að hafa áhyggjur af þessu í 7 ár, er það ekki flott?
Issi: Bíddu bíddu bíddu... mig langar nú að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort ég eigi virkilega að borga þetta.
Breddi (reiðilega): Ertu vitlaus maður? Auðvitað áttu að borga þetta! Þú ferð ekki rassgat með þetta fyrir dómstóla, það tekur alltof langan tíma og við Holli nennum ekki að bíða svo lengi! Skrifaðu bara undir þennan fokking samning! NÚNA!
Issi: Rólegur maður, ég þarf nú að lesa þennan samning og bera hann undir konuna mína, hún þarf nú að fá að segja sitt álit á þessu.
Breddi (í hæðnistón): Sýna konunni þinni? Bíddu, ertu einhver fokking undirlægja auminginn þinn? Auðvitað ferðu ekki að sýna bölvaðri kerlingunni eitt né neitt, þú skrifar bara undir, punktur!
Issi (skjálfandi röddu): Ekki tala svona um konuna mína!
Breddi (öskrandi af reiði): Hættu þessu djöfulsins væli maður! Skrifaðu bara undir eða við fokking berjum þig og alla þína fokking fjölskyldu!
Issi (með tárin í augunum): Eeeh... allt í lagi, ég skal skrifa undir. Bara plís, ekki meiða okkur.
Breddi (glottandi): Hehe auðvitað ekki, við erum jú vinir.
Stuttu seinna í reykjarmettuðu bakherbergi í Ebba-klúbbnum.
Breddi: Hehe, okkur tókst að fá fíflið til að skrifa undir. Hann getur aldrei borgað þetta.
Ebbi: Flott, þá er allt samkvæmt áætlun. Nú kemur hann skríðandi til okkar og er tilbúinn að gera hvað sem er til að komast í klúbbinn. Þú veist hvað það þýðir.
Breddi: Ójá. Ég hef beðið lengi eftir þessu.
Endir.
Spurning um daga hvenær leynd verður létt af Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.