16.1.2009 | 13:11
Á ríkið að skipta sér af því hvers kyns kynfæri stjórnendur einkafyrirtækja eru með?
Ég tel mig vera jafnréttissinna, þ.e. ég styð jafnan rétt kvenna og karla í hinu daglega lífi og starfi. Hins vegar er ég algerlega á móti þeirri stefnu sem sumir feministar hafa komið með, en það er kvenréttisstefna, sem gengur út á það að hygla konum einungis fyrir það að vera konur. Það er ekki leiðin að jafnrétti að mínu mati.
Nú eru konur um helmingur Íslendinga, helmingur fólks á vinnumarkaði, helmingur kjósenda, rúmur þriðjungur alþingismanna og þriðjungur ráðherra. Kona hefur verið forseti meira en eitt tímabil, konur hafa stýrt stórum fyrirtækjum, konur eru ráðandi hluthafar í mörgum fyrirtækjum og konur eru í stjórn margra stórra fyrirtækja. Konur eru ekki einhver algjörlega valdalaus og kúgaður hópur, heldur stór og sterkur hópur sem hefur fulla möguleika á að nýta verðleika sína og hæfni. En vissulega er ekki hægt að fela þá staðreynd að mun færri stjórnendur eru konur en karlar og er það mál sem mætti bæta. En þar sem mig og suma greinir á, er um það hvort virkilega sé nauðsynlegt að ríkið fari að skipta sér af því hvers konar kynfæri stjórnendur á opnum markaði hafa, með því að setja sérstaka löggjöf þess að lútandi. Það finnst mér fulllangt gengið inn á svið sem ríkið á að hafa sem minnst afskipti af, önnur en eðlilegt eftirlit auðvitað (sérstaklega í ljósi þess sem gerst hefur undanfarið í íslensku atvinnulífi). Það sem ríkið á hins vegar að gera er að setja hinum opna og frjálsa markaði fordæmi. Það er hægt með því að hvert og eitt ráðuneyti móti jafnréttisstefnu innan stofnana og opinberra fyrirtækja á sínu sviði og innan þeirrar stefnu getur rúmast einhverskonar kynjakvóti í stjórnum viðkomandi stofnana. Séu ríkisstofnanir að standa sig vel í jafnréttismálum og aukin umræða í gangi sömuleiðis, tel ég að hinn frjálsi markaður muni fylgja á eftir. Aukinn þrýstingur frá viðskiptavinum getur einnig skipt sköpum, t.d með því að skipta frekar við fyrirtæki þar sem kynjahlutfall stjórnenda er sem jafnast. Þar gæti jafnréttisstofa t.d unnið með hlutafélagaskrá um að gera upplýsingar um kynjahlutfall stjórnenda aðgengilegar á netinu.
En eins og áður sagði tel ég alltof langt gengið ef norska leiðin verður farin hér á landi, og raunar tel ég að það sé ekki konum til framdráttar, því þá er beinlínis verið að slengja því fram að þær séu ekki jafn hæfir stjórnendur og karlarnir, fyrst það þurfi að þröngva þeim upp á fyrirtækin. Þetta mun bara valda gremju hjá fyrirtækjum. Eins getur það vel gerst að fyrirtæki setji bara einhverjar konur í stjórnirnar, sem hafa ekki menntun né reynslu til starfans, til þess eins að uppfylla kynjakvótann og ganga þannig hjá hæfari umsækjendum. Þannig gæti fyrirtæki til dæmis ráðið skúringakonu í stjórn fyrirtækisins og borgað henni því hærri laun, gegn því að hún sé meðfærileg, þ.e. samþykki allt sem fyrirsvarsmaðurinn stendur fyrir og sé þannig í raun ekki virkur stjórnarmaður.
Ég er ekki að segja að það sé ekki til fullt af hæfum konum í stjórnendastöður, heldur þvert á móti, en til að þær fái að njóta sín þurfa þær að komast í áhrifastöður vegna sinna eigin verðleika, ekki vegna þess að þær eru með öðruvísi kynfæri en hinir. Ég velti líka upp þeirri spurningu hvar stoppa eigi í jafnréttismálunum, því jafnrétti nær jú yfir mun meira en bara jafnan rétt karla og kvenna. Þarf þá ekki með lagasetningu að bæta rétt ýmissa minnihlutahópa í stjórnum fyrirtækja? Til dæmis að í stjórn hvers fyrirtækis skuli vera a.m.k. einn örvhentur, einn gyðingur, einn múslimi, einn blökkumaður, einn austurlandabúi og einn hommi eða lesbía o.s.frv. Þá finnst mér alveg eins að ljóshært fólk eigi að hafa jafnan rétt og dökkhært, hvað þá rauðhært fólk, og sömuleiðis að bláeygt, græneygt eða brúneygt eigi að hafa sama rétt. Það er endalaust hægt að halda áfram í vitleysunni.
Félagsmálaráðherra: Aðhyllist kynjakvóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.