3.2.2009 | 11:37
Um að gera að skoða þetta
Þó ég sé enginn sérstakur stuðningsmaður Steingríms J, þá líst mér vel á að hann sé að skoða aðra valkosti en Evruna, því ef við tökum upp norska krónu, þá erum við að fá sterkari og stöðugri gjaldmiðil en við höfum í dag, en sleppum við að gangast undir afsal sjálfstæðis og yfirráða yfir eigin hag sem annars myndi fylgja inngöngu í ESB. Það eru líka góðar líkur á að við gætum tekið norsku krónuna upp mun fyrr en evru, því til að fá evruna þurfum við að uppfylla ströng skilyrði, sem á engan hátt eru uppfyllt í dag. En það er svosem líklegt að Norðmenn setji einhver skilyrði, en væntanlega ekki jafn ströng og hjá ESB.
Mér líst líka vel á aukið samstarf við Noreg, þar sem þeir eru okkur einna skyldastir af þjóðum heimsins, bæði hvað varðar uppruna og menningu, og samfélagsgerð þeirra er auk þess mjög áþekk okkar. Þá gætu Norðmenn verið okkur ráðleggjandi varðandi hugsanlegar olíuauðlindir og við sömuleiðis verið þeim innan handar á þeim sviðum þar sem við höfum víðtæka þekkingu. Til dæmis varðandi endurnýjanlegar auðlindir.
Ég hef lengi verið fullur efasemda um að Evrópusambandið gangi upp til lengdar í því formi sem það er í dag, og hræringar innan þess undanfarið renna stoðum undir þær efasemdir mínar. Því tel ég líklegt að margar þjóðir muni vilja kúpla sig út úr því samstarfi og hafa þess í stað áfram samstarf á þeim grunni sem EES byggist á, þ.e. fjórfrelsinu, en ekki sem eitt stórt miðstýrt ríki eins og ESB er í dag. Þá væri upplagt að athuga samlegðaráhrif þess að norðurlöndin öll mynduðu með sér myntsamstarf, þ.e. skandinavísku krónuna eða eitthvað álíka, þar sem þessi lönd eiga margt sameiginlegt og um að gera að efla viðskipti þeirra á milli.
Tilbúin í viðræður um samstarf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2009 | 01:18
Villandi frétt
Það getur verið nokkuð villandi fyrir þá sem ekki þekkja til að tala um handtöku í þessu tilfelli án þess að skilgreina það nánar. Ég hef reynslu af innheimtustörfum fyrir hið opinbera og vill því leiðrétta hugsanlegan misskilning fólks.
Með handtöku vegna tregðu fólks við að mæta í fjárnám er átt við það að lögreglan hefur heimild til að leita að fólki hvenær sem er á opnunartíma sýslumannsembættisins og færa það þangað svo hægt sé að klára fjárnámið. Það er ekki verið að tala um að fangelsa einn né neinn. Þegar "handtekna" fólkið hefur svo lokið því að lýsa yfir eignaleysi (allir sem fara í þessa meðferð eiga engar eignir sem gerðarbeiðandi hefur viljað taka fjárnám í), þá er gert árangurslaust fjárnám sem setur menn á vanskilaskrá og getur verið undanfari gjaldþrotaskipta. Þetta er aðgerð sem tekur kannski 5 mínútur og svo fá menn að fara frjálsir ferða sinna. Mín reynsla hefur sýnt að ansi margir sem eru á handtökulistanum eru á vanskilaskrá út af einhverju öðru máli fyrir og því breytir það litlu fyrir þá, að klárað sé enn eitt fjárnámið. Að vera á vanskilaskrá hefur það í för með sér að erfitt er að fá lán eða kreditkort í bönkunum. Margir geta lifað án þess.
Svo fer það óðum minnkandi að einstaklingar séu settir í gjaldþrot, en það er auðvitað í höndum gerðarbeiðandans, sem í þessum málum gæti verið sýslumannsembættið (vegna ógreiddra opinberra gjalda) eða bankar og innheimtustofnanir. Sá sem óskar eftir gjaldþrotaskiptum þarf að reiða fram 250 þúsund kall (sem hann reynir svo að fá endurgreiddan úr þrotabúinu), svo það er ekki víst í þessu ástandi að neinn leggi í það.
Sem sagt, þegar talað er um að menn séu á handtökulista vegna fjárnáma er um allt annan hlut að ræða en að menn séu fangelsaðir. Eina leiðin (sem ég veit um) til að geta verið fangelsaður vegna vangoldinna gjalda er ef menn hafa verið með rekstur á sinni kennitölu eða sér kennitölu og ekki greitt vörsluskatta (virðisaukaskatt, staðgreiðslu af launum eða tryggingagjald), að undangengnu árangurslausu fjárnámi og löngu og tímafreku ferli, er hægt að höfða mál á hendur aðilanum fyrir dómstólum. Sé viðkomandi dæmdur fær hann á sig fjársekt og fangelsi í vararefsingu. Ef aðilinn var með rekstur á sér kennitölu (t.d. ehf) þá þarf að gera félagið gjaldþrota fyrst (án þess að krafan fáist greidd) áður en hægt er að fara í dómsmál.
Þessi frétt er í raun bara einhver æsifréttamennska og hlutirnir látnir líta verr út en þeir raunverulega eru. Það er heldur ekki víst að öll þessi mál séu afleiðing af fjármálakrísunni sem hófst fyrir alvöru í haust. Oft eru mál að velkjast um hjá sýslumannsembættunum í dágóðan tíma (marga mánuði) áður en aðilar eru settir á handtökulistann.
Hátt í 400 handtökuskipanir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.1.2009 | 13:11
Á ríkið að skipta sér af því hvers kyns kynfæri stjórnendur einkafyrirtækja eru með?
Ég tel mig vera jafnréttissinna, þ.e. ég styð jafnan rétt kvenna og karla í hinu daglega lífi og starfi. Hins vegar er ég algerlega á móti þeirri stefnu sem sumir feministar hafa komið með, en það er kvenréttisstefna, sem gengur út á það að hygla konum einungis fyrir það að vera konur. Það er ekki leiðin að jafnrétti að mínu mati.
Nú eru konur um helmingur Íslendinga, helmingur fólks á vinnumarkaði, helmingur kjósenda, rúmur þriðjungur alþingismanna og þriðjungur ráðherra. Kona hefur verið forseti meira en eitt tímabil, konur hafa stýrt stórum fyrirtækjum, konur eru ráðandi hluthafar í mörgum fyrirtækjum og konur eru í stjórn margra stórra fyrirtækja. Konur eru ekki einhver algjörlega valdalaus og kúgaður hópur, heldur stór og sterkur hópur sem hefur fulla möguleika á að nýta verðleika sína og hæfni. En vissulega er ekki hægt að fela þá staðreynd að mun færri stjórnendur eru konur en karlar og er það mál sem mætti bæta. En þar sem mig og suma greinir á, er um það hvort virkilega sé nauðsynlegt að ríkið fari að skipta sér af því hvers konar kynfæri stjórnendur á opnum markaði hafa, með því að setja sérstaka löggjöf þess að lútandi. Það finnst mér fulllangt gengið inn á svið sem ríkið á að hafa sem minnst afskipti af, önnur en eðlilegt eftirlit auðvitað (sérstaklega í ljósi þess sem gerst hefur undanfarið í íslensku atvinnulífi). Það sem ríkið á hins vegar að gera er að setja hinum opna og frjálsa markaði fordæmi. Það er hægt með því að hvert og eitt ráðuneyti móti jafnréttisstefnu innan stofnana og opinberra fyrirtækja á sínu sviði og innan þeirrar stefnu getur rúmast einhverskonar kynjakvóti í stjórnum viðkomandi stofnana. Séu ríkisstofnanir að standa sig vel í jafnréttismálum og aukin umræða í gangi sömuleiðis, tel ég að hinn frjálsi markaður muni fylgja á eftir. Aukinn þrýstingur frá viðskiptavinum getur einnig skipt sköpum, t.d með því að skipta frekar við fyrirtæki þar sem kynjahlutfall stjórnenda er sem jafnast. Þar gæti jafnréttisstofa t.d unnið með hlutafélagaskrá um að gera upplýsingar um kynjahlutfall stjórnenda aðgengilegar á netinu.
En eins og áður sagði tel ég alltof langt gengið ef norska leiðin verður farin hér á landi, og raunar tel ég að það sé ekki konum til framdráttar, því þá er beinlínis verið að slengja því fram að þær séu ekki jafn hæfir stjórnendur og karlarnir, fyrst það þurfi að þröngva þeim upp á fyrirtækin. Þetta mun bara valda gremju hjá fyrirtækjum. Eins getur það vel gerst að fyrirtæki setji bara einhverjar konur í stjórnirnar, sem hafa ekki menntun né reynslu til starfans, til þess eins að uppfylla kynjakvótann og ganga þannig hjá hæfari umsækjendum. Þannig gæti fyrirtæki til dæmis ráðið skúringakonu í stjórn fyrirtækisins og borgað henni því hærri laun, gegn því að hún sé meðfærileg, þ.e. samþykki allt sem fyrirsvarsmaðurinn stendur fyrir og sé þannig í raun ekki virkur stjórnarmaður.
Ég er ekki að segja að það sé ekki til fullt af hæfum konum í stjórnendastöður, heldur þvert á móti, en til að þær fái að njóta sín þurfa þær að komast í áhrifastöður vegna sinna eigin verðleika, ekki vegna þess að þær eru með öðruvísi kynfæri en hinir. Ég velti líka upp þeirri spurningu hvar stoppa eigi í jafnréttismálunum, því jafnrétti nær jú yfir mun meira en bara jafnan rétt karla og kvenna. Þarf þá ekki með lagasetningu að bæta rétt ýmissa minnihlutahópa í stjórnum fyrirtækja? Til dæmis að í stjórn hvers fyrirtækis skuli vera a.m.k. einn örvhentur, einn gyðingur, einn múslimi, einn blökkumaður, einn austurlandabúi og einn hommi eða lesbía o.s.frv. Þá finnst mér alveg eins að ljóshært fólk eigi að hafa jafnan rétt og dökkhært, hvað þá rauðhært fólk, og sömuleiðis að bláeygt, græneygt eða brúneygt eigi að hafa sama rétt. Það er endalaust hægt að halda áfram í vitleysunni.
Félagsmálaráðherra: Aðhyllist kynjakvóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2009 | 15:21
Helför nr. 2
Efast einhverjir um það enn, að þessir Ísraelsmenn eru stríðsglæpamenn??? Þeir eru að sýna af sér háttsemi sem Hitler hefði öfundað þá af, þ.e. þeir fá að myrða börn og gamalmenni í unnvörpum án þess að alþjóðasamfélagið skipti sér nokkuð af því. Það heyrist varla bofs frá Sameinuðu Þjóðunum þó svo að Ísraelsher hefði rústað byggingu í þeirra eigu. Það er öllum skítsama þó þeir leggji stúlknaskóla í rúst sem fylltur var almennum borgurum. Og þær fréttir sem við fáum eru ekki nema bara rétt svo toppurinn á ísjakanum af þeim voðaverkum sem þarna eiga sér stað. Ég meina, tölurnar segja nú sitt, á móti 13 látnum ísraelskum hermönnum eru yfir 1000 palestínumenn dánir, þar af hátt í 400 börn. Ef þetta er ekki hrein og bein slátrun eða réttarasagt þjóðarmorð þá veit ég ekki hvað.
Og hvað er málið hjá mogganum að tala alltaf um herskáa Palestínumenn??? Eru það ekki Ísraelar sem eru herskái aðilinn um þessar mundir, þ.e. þeir eru að murrka lífið úr fólki á Palestínsku landi með hátæknivæddum stríðstólum og hugsanlega kolólöglegum efnavopnum og þeir örfáu palestínumenn sem freta á þá úr baunabyssunum sínum eru kallaðir herskáir!!! Þetta er djöfullsins firra sem ráðamenn hér heima ættu að gera eitthvað í. Setja smá fordæmi og koma með almennilega yfirlýsingu til alþjóðasamfélagsins þar sem þessi grimmdarverk eru fordæmd, og þá meina ég að öll ríkisstjórnin eigi að taka þátt í því. Ekki bara eitthvað máttlaust gelt frá utanríkisráðherra, sem þó má eiga það að hún gerði eitthvað, meðan hinir ráðherrarnir þorðu ekki að segja neitt af einhverjum þrælsótta við Bandaríkjamenn.
Olmert segir að skotið hafi verið frá byggingu SÞ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2008 | 16:28
Fjandinn hirði ESB og IMF
Já, það er ljóst að við eigum ekki marga vini innan þessa bölvaða fasistaklúbbs sem er Evrópusambandið. Þessi klúbbur passar upp á sína og leyfir engum að komast upp með neitt múður, nema auðvitað stóru ríkjunum innan sambandsins. Vissulega get ég skilið að það þyki raska ró á fjármálamörkuðum ef eitt ríki þarf ekki að standa við samning sem það skrifar undir, en mér finnst hins vegar málið öllu flóknara en svo.
Það hefur fyrir það fyrsta ekkert komið fram sem stutt getur þá fullyrðingu Breta, að við hefðum engan hug á að standa við skuldbindingar okkar. Einungis kom fram að við gætum ekki borgað strax og þyrftum tíma til þess, en við myndum reyna hvað við gætum. Er það sama og að segjast ekki hafa neinn hug á að borga, eins og fíflið hann Gordon Brown gaf út? NEI. Svo setja þessir siðlausu bjánar af stað þvílíkt hatursfullar aðgerðir gagnvart nokkurri þjóð að jafnast á við stríðsyfirlýsingu. Allt þetta segjast þeir gera til að gæta hagsmuna breskra sparifjáreigenda, sem er í raun öfugmæli, því með því að veita íslenskum efnahag náðarhöggið og koma í veg fyrir að við getum staðið upp, þá eru þeir að stuðla að því enn frekar að við getum ekki borgað. Þetta er svona svipað og að eiga inni skuld hjá einhverjum, sem á í erfiðleikum, og í staðinn fyrir að styðja hann og reyna að hjálpa honum svo hann geti borgað, þá lemur maður hann niðrí götuna, kveikir í húsinu hans og tekur af honum allar eigur, kastar aur í mannorð hans svo enginn vilji eiga við hann viðskipti, reynir allt hvað þú getur að koma í veg fyrir að hann geti fengið tekjur og þar með borgað þér og hótar svo lögsókn og kallar hann hryðjuverkamann á meðan hann liggur lemstraður og grátandi í götunni. Er það meðferð sem við eigum að sætta okkur við? NEI, ALLS EKKI!!!
Við höfum lengi haft gott orð á okkur fyrir að greiða okkar skuldir skilmerkilega, en svo þegar einhverjir sem eiga inni hjá okkur koma fram með þessum hætti, án þess að "vinaríki" okkar hjá ESB sjái neitt athugavert við það, þá get ég ekki séð að við höfum mikið að gera í samstarfi við þessi ríki. Ég legg til, líkt og margir aðrir Íslendingar, að við neitum að greiða eitt né neitt til Breta, fyrr en þeir hafi beðist formlegrar og auðmjúklegrar afsökunar á ódæðinu og greitt okkur skaðabætur fyrir það fjárhagslega tjón sem þeir hafa valdið með aðgerðum sínum. Því næst ættum við að segja okkur úr stjórnmálasambandi við Bretland. Það ætti vonandi að vekja fólk til umhugsunar um þá hrikalegu stöðu sem við erum í af völdum þeirra. Ef hin EES ríkin halda áfram að styðja Bretana við þetta, þá getum við allt eins sagt okkur úr EES. Við höfum lítið að gera við alþjóðlega samninga sem fordæma okkur fyrir hugsanleg brot á þeim, meðan aðrar þjóðir fá óáreittar að brjóta þá á bak aftur, sem og mannréttindi og alþjóðalög.
Svo varðandi þetta IMF, þá er þessi sjóður ekkert annað en handbendi stóru þjóðanna til að sölsa undir sig auðlindir smáþjóða. Langflest ríki ef ekki öll sem þáð hafa aðstoð sjóðsins hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum af völdum þeirra skilyrða sem sjóðurinn setur. Sú "ásættanlega" niðurstaða sem ríkisstjórnin talar um í þessu máli skal skoðuð með tortryggni, því ef manni er stillt upp við vegg og hótað öllu illu er hægt að tala um allar niðurstöður sem ásættanlegar. Við þurfum að gera þá kröfu að við fáum að sjá öll þessi skilyrði og líka smáaletrið.
Ísland á dagskrá IMF á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2008 | 17:23
Hvað kemur það starfi hennar við?
Oki, fyrir það fyrsta þykir mér þessi dagskrárgerðarkona sýna afskaplega fáfræði og fordóma með því að setja einhvern glæpamannastimpil á alla asíubúa. Einnig er hún dónaleg og hrokafull við starfsmenn leigubílastöðvarinnar. En hvað kemur það starfi hennar hjá BBC við? Það kemur hvergi fram í fréttinni að konan hafi sýnt af sér fordóma eða vítaverða hegðun í starfi, heldur sýnir hún þessa hegðun í sínu persónulega lífi, þ.e. fyrir utan vinnu.
Það eru til ógrynnin öll af fólki sem hefur heimskulegar og vanhugsaðar skoðanir á ýmsum málum, á að reka það allt úr störfum sínum? Ætti til dæmis að reka kjötskurðarmann í Hagkaup fyrir að fara ekki í strætó sem Pólverji ekur? Eða reka leikskólakennara í Hafnarfirði sem finnst ekki sniðugt að hafa blökkumann í Hvíta húsinu?
Ég get vel tekið undir það að manneskja sem gegnir mikilvægu og mjög opinberu starfi, t.d. eins og stjórnmálamaður eða hátt settur embættismaður, sem sýnir af sér svona hegðun skuli vera rekinn eða látinn segja af sér, en ekki eitthvað venjulegt launafólk út í bæ, eins og einhver starfsmaður hjá sjónvarpsstöð. Þetta sýnir bara hversu mikil hræðsla er í þjóðfélaginu við allt sem túlka má sem kynþáttahatur. Meirihlutahópar lifa í stöðugri hræðslu við að hvert einasta orð sem það lætur útúr sér, við hvaða lítilfjörlegu aðstæður sem er, geti verið notað gegn þeim og jafnvel eyðilagt fyrir þeim starfsframa þeirra, jafnvel þótt það sem sagt var komi starfi þeirra ekkert við. Ekki þykir mér það bera vott um tjáningar- og skoðanafrelsi.
Dýrkeypt hringing eftir leigubíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.10.2008 | 12:39
Mótmæli hvað?
Ég kíkti á þessa samkomu til þess að hlusta á Bubba syngja nokkur lög. Ég var ekki að mæta þarna til að mótmæla einu né neinu. Þetta er villandi frétt, því þarna er gert ráð fyrir því að allur sá mannfjöldi sem saman er kominn þarna sé að mótmæla. Þann stutta tíma sem ég var þarna voru engin hróp né köll, né mótmælaspjöld á lofti, heldur einungis fólk sem komið var á Austurvöll til að hlusta á nokkra slagara í hádegishlénu sínu.
Endalausar svartsýnisfréttir eru þetta alltaf!
Fjöldi fólks á mótmælasamkomu Bubba | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2008 | 21:05
Ekki fyrsta skáldsagan sem geðsjúklingar misnota
Það eru nú ekki nýjar fréttir að geðsjúklingur hafi lesið einhvern boðskap úr skáldsögu og framið hrottafengna glæpi í kjölfarið. Við verðum vitni að þessu á hverjum einasta degi og mannkynið hefur upplifað þetta frá því í örófi alda. Tugir ef ekki hundruð milljóna manna hafa nú látið lífið gegnum tíðina vegna geðsjúklinga sem misnotuðu einhverjar útbreiddustu skáldsögur í heimi, Biblíuna og Kóraninn, til að finna ofbeldisverkum sínum skjól. Þannig að ég skil ekki hvers vegna það sé frétt að einn geðsjúklingur hafi stungið mann eftir að hafa lesið skáldsögu (eða horft á bíómynd), þegar í dag eru jafnvel við lýði þjóðhöfðingjar sem fara í stríð við aðrar þjóðir og heilu þjóðfélagshóparnir eru kúgaðir eða þjáðir vegna trúar manna á slíkar sögur.
Góðar skáldsögur eru góð afþreying, sem fólk á að lesa sér til skemmtunar, nú eða lífsfyllingar, en enginn á þó rétt á að afsaka misgjörðir sínar og sjúklegt hugarfar með vísan í það sem fram kemur í þeim.
Hnífamaður undir áhrifum Da Vinci lykilsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2008 | 16:04
Endemis tvískinnungsháttur
Já það er ekki öll vitleysan eins. Margir repúblikanar höfðu áhyggjur af því að Sarah Palin væri ekki hentugt efni í varaforseta vegna þess að hún er ekki með typpi, en svo voru aftur á móti aðrir repúblikanar sem fögnuðu valinu og töldu Söru geta sýnt fram á að konur væru ekki bara teprulegar væluskjóður sem ættu bara að hugsa um börnin og eiginmanninn sinn, heldur gætu verið gallharðir stjórnmálamenn ekki síður en karlar. Sarah hefur sjálf notað sér kynferði sitt til að fiska inn atkvæði, m.a. hjá kvenkyns kjósendum, og reynir hún að sýna styrk sinn, m.a. með þeim orðum að eini munurinn á "hokkímömmunni" henni og Pit Bull (bálgrimm og nautsterk hundategund) sé varaliturinn.
Síðan snýr Barack Obama sneri útúr þessum ummælum Söruh í ræðu sinni og sagði að svín væri ennþá svín þrátt fyrir að settur væri á það varalitur. Eftir að hann lét þessi ummæli útúr sér urðu repúblikanarnir bálreiðir og sökuðu hann um fyrirlitningu gagnvart konum almennt með að snúa svona útúr orðum Söruh.
Þetta þykir mér út í hött. Fyrir það fyrsta þá get ég ekki skilið ummæli Obama sem einhverja kvenfyrirlitningu, frekar kannski sem smekklaust grín. Hann er þarna að snúa útúr þeim ummælum andstæðings síns að hún sé grimmur hundur með varalit og kallar hana í staðinn svín með varalit. Hann er ekki að kalla hana svín af því að hún er kona og notar varalit, heldur af því að hann er að gera grín að henni sem andstæðingi og hennar skoðunum, eina ástæðan fyrir að hann segir hana svín með varalit er af því að hún vísaði sjálf til varalits í sínum ummælum. Ég hef enga trú á því að hann hefði orðað sín ummæli öðruvísi ef andstæðingurinn hefði verið með typpi og skeggrót. Að vísu hefði varaliturinn þá líklegast ekki blandast inn í umræðuna.
Sem sagt, forsetaframbjóðandi segir að varaforsetaefni andstæðings síns sé svín frekar en grimmur hundur, og andstæðingarnir notfæra sér þá staðreynd að varaforsetaefnið sé kona til að reyna að varpa kvenhatarastimpli á Obama. Hvaða rugl er þetta, má þessi Sarah gjamma endalaust út í eitt en svo ef einhver segir eitthvað á móti henni þá er hann kvenhatari? Eru þetta þau skilaboð sem repúblikanar vilja senda út í samfélagið; að það megi ekkert segja við konur af því þær séu svo viðkvæmar og brothættar?
Sakaður um kvenfyrirlitningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.6.2008 | 12:16
Dómínókubbarnir falla hver af öðrum
Ég er hræddur um að það ástand sem er á markaðinum í dag eigi einungis eftir að versna. Á meðan bankarnir halda að sér höndum í útlánum, sitja byggingarverktakar og einstaklingar uppi með óseljanlegar eignir með tilheyrandi kostnaði og veseni, sem gerir það að verkum að þessir aðilar missa allt niðrum sig. Sumir kunnugir menn segja að sú komandi lækkun fasteignaverðs sem ríkisstjórnin og greiningardeildir bankanna hafa gefið út sé stórlega vanmetin, og líklega eigi fasteignaverðið eftir að falla geigvænlega á næstu árum ef ekkert verður að gert.
Það er ljóst að bankarnir hafa engan áhuga á að koma í veg fyrir verðlækkun húsnæðisverðs, þeir hafa aðrar kenndir. Hér er smá hugleiðing um þá leið sem bankarnir gætu farið. Nú eiga þeir nefnilega veð í gríðarlega mörgum eignum, sem þeir ná að fella í verði með því að lána ekki til kaupa á þeim. Þegar eignirnar falla niður fyrir veð bankanna, krefja þeir eigandann um meira veð, ellegar verður eignin boðin upp. Þar sem enginn getur keypt eignirnar (þar sem þeir fá ekki lán), þá kaupa bankarnir þær á niðursettu verði og leigja þær út. Eftir kannski 1-2 ár í útleigu og markaðurinn hefur batnað eitthvað, þá byrja bankarnir aftur að lána grimmt til fasteignakaupa, sem gerir það að verkum að markaðurinn tekur stökk og allar eignir hækka í verði og bankarnir selja svo loks eignirnar með miklum hagnaði. Vissulega er þetta siðlaust með öllu, en hvað eru viðskipti annað en siðlaus?
Á meðan bankarnir hugleiða þessa leið, þá er nauðsynlegt að við höldum fasteignaverðinu í skikkanlegu formi, með því m.a. að taka Íbúðalánasjóð í gegn og t.d. hækka lánshlutfall og fjárhæðir þannig að eðlileg velta haldist á fasteignamarkaði. Það virðist enginn hafa áhuga á þessu málefni á Alþingi, en menn hins vegar eyða tíma sínum frekar í umræður um klæðnað ungbarna og ókynbundin starfsheiti ráðamanna og svo fara bara allir í frí! Jibbí!
Fjölmiðlarnir virðast heldur ekki hafa neinn sérstakan áhuga á þessu, því á meðan krónan er að falla um tæpt prósent á einum degi (sjá hér), sem hafa mun aukin áhrif á verðbólgu, þá eru allir fjölmiðlar og umræðuvettvangar uppfullir af vangaveltum um einhvern helvítis ísbjörn!!! Hvað er að ykkur??? Hvernig væri að forgangsraða aðeins betur og fjalla um það sem skiptir fólkið í landinu máli.
Skila lóðum fyrir 200 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)