Að byrja á öfugum enda

Þetta fyrirkomulag er ofar mínum skilningi. Segjum sem svo að einungis karlar byðu sig fram í efstu tvö sætin, mætti þá karlmaður ekki sækjast eftir 3. sætinu? En ef kona byði sig fram í 2. sætið og karl í 3. sætið og síðan myndi konan tapa fyrir karlinum um 2. sætið, en karlinn sem sótti um 3. sætið hefði unnið, myndu þau atkvæði sem hann fékk þá eyðileggjast og kona sem fengið hefði færri atkvæði en hann látin fá sætið? Hvurslags vitleysa er þetta eiginlega? Er ekki verið að byrja á öfugum enda í blessaðri jafnréttisbaráttunni?

Vissulega hefur raunin verið sú að mun fleiri karlar en konur hafa náð efstu sætum úr prófkjöri. Annað hvort er það vegna þess að færri konur sóttu um þau sæti, nú eða þá að þær konur sem sóttu um fengu færri atkvæði en karlarnir. Það eru frambjóðendur sem ráða því í hvaða sæti þeir ætla að bjóða sig fram og það eru atkvæðin sem ráða því hver af frambjóðendunum er valinn í sætið. Það er ekki eins og einhver hópur af jakkafataklæddum karlrembusvínum sitji glottandi í einhverju reykfylltu bakherbergi að plotta gegn konum og gera það að verkum að þær komast hvergi áfram. Síðast þegar ég vissi voru konur helmingur kjósenda og þar með handhafar helmings valdsins. Ég tel því eðlilegt að spyrja; fyrst kynferði frambjóðenda er svona afskaplega mikilvægt fyrir hag kjósenda, af hverju hafa þá ekki fleiri konur kosið kvenkyns frambjóðendurna? Hvað er það sem veldur því að útúr lýðræðislegum kosningum skuli konur fá færri atkvæði en karlar? Er það ekki þarna sem vandamálið liggur og eitthvað þarf að bæta? Hvernig væri að ráðast á orsökina frekar en afleiðingarnar?

Það má alveg gera ráð fyrir því að einhverjar reglur sem eiga að hampa öðru kyninu á kostnað hins, sem meira að segja tekur fyrir hendurnar á lýðræðinu, séu ekki til þess fallnar að auka jafnrétti. Frambjóðendur eiga að fá að bjóða sig fram í hvaða sæti sem þeir vilja og kjósendur eiga að fá að velja þann frambjóðanda sem þeir vilja. Kynferði á ekki að skipta neinu máli þarna. Ef frambærilegasti og/eða vinsælasti frambjóðandinn er kona, þá hlýtur hún að vera valin frekar enn aðrir frambjóðendur. Ef kvenkyns frambjóðandi fær færri atkvæði en karl, þá er það dómur kjósenda. Hún hefur kannski ekki auglýst sig eins mikið, eða ekki haft jafn góð málefni að leiðarljósi að mati kjósendanna. Við vali kjósenda á ekki að hrófla, annars er verið að grafa undan hornsteini samfélagsins, sem er lýðræðið.

Ef færri konur sækjast eftir sætum en karlar, þá þýðir það bara að færri konur hafa áhuga á starfinu eða telja sig ekki geta sinnt því. Hugsanlega þarf einhverskonar hugarfarsbreytingu hjá fólki um að konur séu jafnhæfar til verka og karlar. Slíka hugarfarsbreytingu tel ég afar ólíklega ef alltaf verður reynt að ráðast á vandann með setja einhverjar reglur um kynjakvóta.


mbl.is Dregur framboð sitt til baka vegna kynjakvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband