Flokkast þetta ekki sem tvísköttun?

Nú virkar tryggingakerfið á svipaðan hátt og lífeyrissjóðskerfið, þ.e. þú borgar iðgjöld í sameiginlegan sjóð og síðan er greitt úr þeim sjóði til þeirra sem á því þurfa að halda, sem sagt samtryggingakerfi. Líkt og með lífeyrissjóðina er meira að segja skylda samkvæmt lögum að taka ákveðnar tryggingar líkt og brunatryggingu fasteigna og ábyrgðartryggingu ökutækis. Hins vegar greinir á milli að inngreiðslur í lífeyrissjóð eru dregnar frá skattstofni og því greiddur af þeim skattur við útgreiðslu. Aftur á móti eru tryggingar greiddar af launum eftir að skattur hefur verið af dreginn, og svo tekinn skattur af tryggingabótum. Því velti ég því fyrir mér, fyrst tryggingar og lífeyrissjóður eru svona lík í eðli sínu, af hverju þarf þá fólk að greiða einu sinni skatt af lífeyrisgreiðslum sínum en tvisvar af tryggingum?
mbl.is Gera kröfu um skatt af sjúkdómatryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst flott hvernig við getum bara einn daginn sagt "ný túlkun á lögum" og þannig lagað.  Hef líka heyrt "þetta er hefðbundin túlkun" beint frá dómsmálaráðherra, en hefðbundin túlkun er notuð svo hægt sé að rangtúlka lög.  Þ.e. túlka lög í bága við það sem hver lesandi maður skilur, og er ómögulegt að rökstyðja með röksemdum.  Eins og börn segja "af því bara".

Jæja, það er svo marg lýsandi um okkar þjóð í umræðunni hér og svo ástandinu.

Hrób. (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 18:21

2 Smámynd: Muddur

Ég er ekki að tala fyrir því að við breytum túlkun á gildandi lögum, enda verður alltaf við túlkun laga að horfa til dómafordæma, vilja löggjafans eða annarra gildra réttarheimilda, og því er ekki hlaupið að því að ákveða einn daginn að túlka lög öðru vísi en áður hefur verið gert. Hins vegar finnst mér í góðu lagi að breyta lögunum sjálfum, þ.e. tekjuskattslögunm þannig að útgreiðsla sjúkdómatrygginga falli utan skattskyldu. Nú þegar er útgreiðsla líftryggingar undanþegin skatti skv. 28. gr. tsl. nr. 90/2003.

Muddur, 19.5.2010 kl. 19:05

3 Smámynd: Hvumpinn

Á meðan að VG eru í stjórn og Indriði að sýsla um hluti verður reynt að sækja alla svona hluti á venjulegt fólk.

Hvumpinn, 19.5.2010 kl. 19:13

4 identicon

Með sömu formerkjum ætti að greiða skatt af öllum tryggingabótum. Líka þeim sem þú færð ef þú lendir í tjóni með bílinn þinn eða ef brotist er inn hjá þér og tölvunni stolið sem þú hafðir tryggt sérstaklega. Með sjúkdómatryggingu ertu ekki að tryggja tölvuna heldur sjálfan þig. Ég sé engann mun á því.

Ef það á að greiða skatt af þessu þá ætti í fyrsta lagi að draga iðgjöld þessara trygginga frá tekjuskattstofni. Ef það er ekki gert þá er þetta bara eins og svo margt annað hjá ríkinu... hreinn og klár þjófnaður.

 En við hverju er svo sem að búast af ríkisstjórn sem fylgir gamalli sovét hugsun... sem það vill svo kalla norrænt velferðarkerfi... fussum svei.

Bjarni (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 19:53

5 identicon

Nornvæna-helferðar-ríkisstjórnin með sína S-gjaldborg ætlar sko sannarlega að láta banna seðlaveski, þar sem þau gætu hugsanlega geymt eitthvað sem þau vilja frekar geyma hjá sér....

Þetta er í raunað verða Ísí (eins og Stasí) nema að það er ekki bara kommúnistaávarpið sem lifað er eftir heldur líka "1984" [G. Orville] sem er tekið sem dæmi um réttláta þjóðerniskennd og heilögum sannleika.... það er kannski vegna þess að 1984 er einmitt árið sem þau eru að reyna sem mest að taka upp aftur í vitstola nostalgíu..... Það er svona að hleypa gegnsýrðum ruglukollum í stjórn sem ekkert hafa afrekað annað en "íslandsmet í þingsetu á árangurs"

Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 19.5.2010 kl. 20:04

6 Smámynd: Hamarinn

Af hverju eiga þessar bætur að vera undanþegnar skatti, frekar en atvinnuleysisbætur, örorkubætur eða ellilífeyrir?

Hamarinn, 19.5.2010 kl. 22:18

7 Smámynd: Muddur

Hamarinn: Sko, eins og ég nefni í pistlinum er lífeyrir einungis skattaður einu sinni, þ.e. við útgreiðslu, þar sem inngreiðslur í sjóðinn eru teknar af launum fyrir skatt. Iðgjöld sjúkdómatryggingar eru aftur á móti greidd af launum eftir skatt og svo eru bæturnar skattaðar þegar til útgreiðslu kemur. Þarna er munur á. Svo varðandi atvinnuleysisbæturnar, þá eru það ekki launamenn sem borga í atvinnuleysistryggingasjóð af sínum launum, heldur eru það atvinnurekendur, þannig að ekki er um að ræða tvísköttun á launamenn í því tilviki. Það sama gildir um örorkubætur, launamenn eru ekki að greiða af sínum launum (eftir skatt) í þann sjóð sem örorkubætur eru greiddar úr. Að vísu fara skattarnir okkar í að greiða út örorkubætur, en það er samt ekki hægt að flokka það með því sem ég er að tala um. Ég er fyrst og fremst að tala um það að þegar þú greiðir í sameiginlegan tryggingasjóð af launum þínum eftir skatt, þá er ekki sanngjarnt að þú þurfir að greiða aftur skatt af því sem þú færð útúr sjóðnum. Alveg eins og með lífeyrinn. Réttast væri þá að iðgjöld í sjúkdómatryggingu væru frádráttarbær frá skatti líkt og lífeyrisiðgjöld.

Ég tel rétt að greina á milli sjúkdómatryggingar í þessu sambandi annars vegar og eignatrygginga hins vegar, líkt og bílakaskó, fasteignatryggingar eða innbústryggingar. Sjúkdómatrygging er að mínu mati eitthvað sem ætti að vera sjálfsögð réttindi allra að hafa, líkt og líftrygging, þar sem löng sjúkrahúsdvöl eða dauði getur haft verulegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir fjölskyldu viðkomandi í ofanálag við þær sálrænu afleiðingar sem að sama skapi verða. Við erum að tala um tryggingar á lifandi fólki en ekki dauðum hlutum, þar greinir á milli. Þess vegna er ég fyrst og fremst að tala um að iðgjöld sjúkratrygginga eigi að vera undanþegin skatti, ég er ekki að tala um eignatryggingar. Að sama skapi þyrfti auðvitað að vera einhverskonar viðmið á hámarki iðgjalda sem undanþegin væru skatti (ef sú leið yrði farin í stað þess að skattleggja iðgjöld en undanþiggja útgreiðslu), þar sem það væri ella freistandi fyrir fólk að tryggja sig svo hátt að það þyrfti ekki að borga neinn skatt af launum sínum. Þetta er eitthvað sem þarf bara að skoða betur af aðilum sem eru fróðari um þessi mál en ég.

Muddur, 20.5.2010 kl. 12:38

8 Smámynd: Hamarinn

Ert þú að halda því fram að þessar tryggingar séu einhverskonar söfnunarsjóðir?

Eru þetta ekki bara venjulegar tryggingar? Iðgjöldin eru ekki það sem þú færð greitt út. Þú hlýtur að fá miklu hærri bætur en það, og þá eru þetta ekkert annað en tekjur. En að sjálfsögðu mætti draga iðgjöldin frá útgreiðslu .

Hamarinn, 20.5.2010 kl. 20:00

9 Smámynd: Hamarinn

Hvernig getur þú haldið því fram að lífeyrissjóðirnir séu líkir þessum tryggingum?

Þetta eru alls óskyld mál.

Hamarinn, 20.5.2010 kl. 20:02

10 Smámynd: Muddur

Skyldulífeyrissparnaður er ekki söfnunarsjóður frekar en sjúkdómatrygging, þú greiðir í lífeyrissjóð en færð bara úr honum ef þú lifir nógu lengi, nú eða maki þinn. Skyldulífeyrissparnaði má líkja við tryggingar að því leyti að þú ert að tryggja þér ákveðnar bætur ef þú þarft á þeim að halda. Þetta er samtryggingakerfi, það virkar á meðan það eru fleiri sem greiða í það en fá greitt úr því. Sumir fá meira út úr lífeyrissjóðunum en aðrir þar sem þeir lifa lengur, jafnvel þó þeir stuttlifuðu hafi greitt meira í sjóðin en hinir langlífu. Eins er með tryggingar, sumir lenda í meiri tjónum en aðrir og fá því meiri bætur þó þeir hafi greitt jafn mikið í iðgjöld.

Eins og ég hef áður nefnt er útgreiðsla líftryggingar undanþegin skatti, að vísu á þeim grundvelli að hún er greidd í einu lagi, en mér finnst það ekki eiga að skipta máli. Eðli málsins vegna finnst mér að það sama ætti að gilda um sjúkdómatryggingu, þó svo að hún sé greidd út á lengri tíma.

Muddur, 21.5.2010 kl. 00:41

11 Smámynd: Muddur

Tryggingar og lífeyrissjóðir eru eðlislega frekar lík fyrirbæri, þú ert að tryggja þér ákveðin réttindi í framtíðinni gegn því að greiða iðgjöld í dag (ég er fyrst og fremst að nefna skyldulífeyrissparnað í þessu tilviki, en ekki séreignasparnað, því það er hreinn og klár söfnunarsjóður og því ekkert líkur því sem ég er að tala um varðandi sjúkdómatrygginguna). Ég er ekki að segja að lífeyrissjóðir og tryggingar séu nákvæmlega eins eða náskyld fyrirbæri, heldur að það séu ákveðin líkindi þar á milli. Þú færð bætur ef þú þarft þær, en bara ef þú hefur borgað í sameiginlegu hítina.

Muddur, 21.5.2010 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband